Föstudaginn 13. desember fóru fram barna- og unglingamót Pílufélags Kópavogs í Digranesinu. Um var að ræða síðasta mót af sex í Jólamótaröð unglinga og stakt mót barna.
Hörð barátta hefur verið meðal unglinganna síðustu vikur og staðan fyrir mót þannig að átta leikmenn höfðu tekið þátt í mótaröðinni en þeir Hlynur Nói og Ísak Freyr vermdu toppsætin með 48 og 44 stig meðan næstu menn voru í nokkurri fjarlægð stigalega og áttu ekki möguleika á sigri í mótaröðinni. Það var ljóst að ef Ísak myndi vinna þetta síðasta mót yrðu þeir Hlynur hnífjafnir að stigum. Að sjálfsögðu fór svo að Ísak vann mótið og jafnt var á öllum tölum. Þeir félagar spiluðu því hreinan úrslitaleik um sigur í mótaröðinni. Ísak var í stuði þennan föstudaginn og vann Hlyn í úrslitaleiknum og tryggði sér um leið sigur í Jólamótaröð PFK og Pingpong.is.
Fimm börn tóku þátt í barnamótinu þar sem spilaður var fimm manna riðill, leikir upp í einn legg í 301 (beint inn/beint út). Úrslit urðu þau að Viktor Atli tók 1. sætið og Gunnar Emil 2. sætið en jafnt var á öllum tölum þeirra á milli svo innbyrðisviðureign þurfti til að skera úr um úrslit.
Við þökkum öllum sem tóku þátt á mótinu á föstudaginn og öllum barna- og unglingamótum ársins hjá okkur en þau eru orðin ansi mörg. Einnig þökkum við Pingpong.is kærlega fyrir að gefa verðlaun á mótin og hvetjum fólk til að kíkja í Síðumúla 35 og kíkja á píluúrvalið. Gleðilega hátíð og sjáumst í Digranesinu á nýju ári.
Comments